Um Unga Gamla
Tónlistarverkefnið Ungir Gamlir fór fram í fyrsta skiptið í nóvember 2006. Það var Flosi Einarsson sem átti hugmyndina, kom verkefninu af stað og stjórnaði því fyrstu árin. Í upphafið var það samstarfsverkefni Grundaskóla, Brekkubæjarskóla, Fjölbrautaskóla Vesturlands og Tónlistarskólans á Akranesi. Árið 2010, stuttu eftir að ég hóf störf við Brekkubæjarskóla, gekk ég til liðs við Flosa og við höfðum sameiginlega umsjón með verkefninu.
Markmið þessa tónlistarverkefnis var að gefa ungu tónlistarfólki á Akranesi tækifæri til að vinna með reyndu fólki og auka þannig áhuga þeirra til að ná lengra á tónlistarsviðinu. Verkefnið var unnið þannig að áhugasamir nemendur skólanna á Akranesi tóku þátt í stuttum námskeiðum og æfingaferli með landsþekktu tónlistarfólki. Í framhaldi af því voru haldnir veglegir tónleikar í Bíóhöllinni á Akranesi, alltaf fyrir fullu húsi.